Skákhátíð um helgina

Um helgina fer fram Íslandsmót skákfélaga á Selfossi en mótið verður sett í kvöld kl. 20 í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Íslandsmótið er stærsti skákviðburður sem fram fer á hverju ári á Íslandi, í ár eru keppendur nálægt 360 og er þetta því líklega fjölmennasta skákmót sem haldið hefur verið á Íslandi.

Mótið er fer fram í fjórum deildum, í 1. og 2. deild eru 8 sveitir, í þriðju deild eru 16 sveitir. Fjórða deildin er opin deild þar sem nýjar sveitir eða skákfélög hefja leik, í ár eru 22 sveitir skráðar til leiks í fjórðu deild. Hverja sveit skipa sex keppendur, utan sveita sem eru í efstu deild þar eru þeir átta.

Íslandsmótið fer fram með þeim hætti að tefldar eru samtals sjö umferðir, fjórum er þegar lokið, þær fóru fram á haustmánuðum. Á Selfossi verða tefldar síðustu þrjár umferðirnar, umferðirnar sem skipta öllu máli, þar sem úrslitin ráðast.

Mótið sækja allir bestu skákmenn Íslendinga, stórmeistarar okkar verða allir á staðnum, landsliðsmenn, unglingalandsliðsfólk, allir efnilegustu skákkrakkar landsins. Mótið er hátíð þar sem aldur er afstæður enda eru keppendur á öllum aldri, allt frá 7 ára og langleiðina uppúr.

Stærstu og sterkustu skákfélögin nýta sér ekki eingöngu krafta íslenskra skáksnillinga heldur leita einnig út fyrir landsteina að liðsstyrkingu og má ætla að erlendir stórmeistarar sem taka þátt séu á bilinu 10-15, eins og gefur að skilja er sú tala ekki á hreinu enda reyna félög oft að halda liðsuppstillingu sinni leyndri fram að móti. Meðal keppenda að utan má telja Ivan Sokolov sem er einn allra sterkasti skákmaður heimsins og mikill Íslandsvinur sem margoft hefur teflt hér á landi og m.a. unnið Reykjavíkurmótið í skák í tvígang, en það mót hefst einmitt á miðvikudag og mun fara fram í Hörpunni í Reykjavík.

Ætla má að baráttan í efstu deild komi til með að standa á milli Reykjavíkurfélaganna Taflfélagsins Hellis, Taflfélags Reykjavíkur, auk Taflfélags Bolungarvíkur og Taflfélags Vestmannaeyja.

Selfyssingar tefla fram sveit í 3. deild og gera sér nokkrar vonir um að fara upp í 2. deild en tvær sveitir fara upp og tvær falla.

Í fjórðu deild er viðbúið að baráttan komi til með að standa á milli Skákfélags Íslands, Skákfélagsins Máta og Austfirðinga. Þar vonast Selfyssingar einnig eftir góðum árangri B-sveitar sinnar.

Ljóst að mikil og einstök skákhátíð er í vændum og er óhætt að hvetja Selfyssinga og nærsveitunga að koma í FSu um helgina og berja alla bestu skákmenn landsins augum og verða jafnframt vitni að þeirri grósku sem einkennir íslenskt skáklíf.