Skákfélag Selfoss og nágrennis Norðurlandameistari í netskák

Mikhail Antipov tók þátt í heimsmeistaramótinu á Selfossi í nóvember síðastliðnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

A-sveit Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) sigraði í dag á óopinberu Norðurlandamóti skákfélaga í atskák sem fram fór á netinu um páskahelgina.

Mikil spenna var fyrir lokaumferð mótsins þar sem fjórar sveitir áttu enn allar möguleika á sigri, þar á meðal sænska sveitin Wasa SK sem A-lið SSON mætti í lokaumferðinni. Í fyrri viðureign SSON og Wasa í lokaumferðinni sigraði SSON með 3,5 vinningum gegn 2,5 en í þeirri síðari sigraði SSON örugglega með 5,5 vinningum gegn 0,5 og tryggði sér með því sigur á mótinu.

Alls tóku 67 sveitir þátt í mótinu og hafnaði B-sveit SSON í 44. sæti. Skáksamband Íslands sá um framkvæmd mótsins.

A-sveit SSON var fjölþjóðleg. Hana skipuðu Rússarnir Andrey Esipenko, Anton Demchenko, Mikhail Antipov, Semyon Lomasov og Artem Galaktionov; Brasilíumaðurinn Rafael Leitao og Íslendingarnir Bragi Þorfinnsson, Arnar Gunnarsson, Dagur Arngrímsson og Róbert Lagermann.

B-sveitina skipuðu Ingimundur Sigurmundsson, Úlfhéðinn Sigurmundsson, Oddgeir Ágúst Ottesen, Ingvar Birgisson, Erlingur Jensson, Þorsteinn Magnússon, Þórður Guðmundsson, Sveinbjörn Jón Ásgrímsson, Oddur Ingimarsson og Oddur Þorri Viðarsson.

Nánar um mótið á heimasíðu SSON