Skagamenn höfðu betur á Selfossi

Selfyssingar töpuðu gegn ÍA á heimavelli í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Leiknum lauk 1-2 og komu öll mörkin í seinni hálfleik.

Skagamenn hófu leikinn betur og áttu tvö góð skot í upphafi leiks. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og þurfti dómari leiksins að lyfta gula spjaldinu fjórum sinnum í fyrri hálfeik.

Markalaust var í leikhléi eftir að gestirnir frá Akranesi höfðu verið örlítið sterkari en heimamenn. Liðið skapaði sér fleiri færi en Selfoss og voru hættulegri fyrir framan teiginn.

Það voru aðeins tvær mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar Dean Martin kom ÍA yfir. Hann sendi boltann fyrir markið og boltinn endaði í markinu eftir misskilning í vörn Selfoss.

Selfyssingar náðu að jafna metin þegar rúmar tíu mínútur vour liðnar af seinni hálfleik. Auðun Helgason skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið eftir mikla baráttu í teig Skagamanna.

En fimm mínútum síðar komust gestirnir yfir aftur með marki úr vítaspyrnu. Dómari leiksins taldi að brotið hafði verið á Hirti Júlíusi innan teigs og Arnar Már Guðjónsson skoraði úr spyrnunni.

Eftir þetta fjaraði leikur út og Skagamönnum tókst drepa niður leikinn. Lokatölur 1-2 og Selfyssingar með þrjú stig eftir þrjá leiki.

Fyrri greinGamlir Þórsarar taka fram skóna
Næsta grein„Ekki að falla með okkur“