Ægir vann góðan sigur í mikilvægum leik gegn Völsungi í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu á Þorlákshafnarvelli í dag.
Það blés ekki byrlega í upphafi leiks fyrir Ægismönnum því gestirnir komust yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik. Fyrsta markið sem Ægir fær á sig í deildinni í sumar. Þeir gulu höfðu þó ekki miklar áhyggjur af því og í uppbótartíma fyrri hálfleiks jafnaði Dimitrije Cokic metin og staðan var 1-1 í hálfleik.
Bæði lið sýndu sínar bestu hliðar í seinni hálfleiknum en það voru Ægismenn sem voru sterkari og Cokic tryggði þeim 2-1 sigur með marki tveimur mínútum fyrir leikslok.
Ægir og Njarðvík eru í efstu sætum deildarinnar með 16 stig, en Njarðvík hefur betra markahlutfall. Þar á eftir koma Völsungur og Þróttur með 13 stig.