Sjö marka tap í Suðurlandsslagnum

Haukur Þrastarson skoraði 10 mörk, þar af þrjú úr vítum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar töpuðu með sjö marka mun í fyrsta heimaleiknum á nýju ári þegar þeir mættu ÍBV í Olísdeild karla í handbolta í dag, 29-36.

Þetta var fyrsti leikur Einars Sverrissonar í Hleðsluhöllinni í langan tíma eftir hnémeiðsli. Hann fékk hins vegar rautt spjald eftir rúmlega þriggja mínútna og misstu Selfyssingar þar mikla ógn fyrir utan.

Jafnræði var með liðunum fyrstu nítján mínúturnar. Þá skoruðu Eyjamenn þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 11-14. Gestirnir héldu forystunni fram að leikhléi en staðan var 16-20 í hálfleik.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. ÍBV byrjaði af krafti og náði fljótlega átta marka forskoti og Selfyssingar náðu aldrei að svara fyrir sig.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 10/3 mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 6, Guðni Ingvarsson 4, Alexander Már Egan 3, Ísak Gústafsson 2 og þeir Einar Sverrisson, Tryggvi Þórisson, Hannes Höskuldsson og Magnús Öder Einarsson skoruðu allir 1 mark.

Einar Baldvin Baldvinsson varði 7 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 1 skot og var með 9% markvörslu.

Selfoss er áfram í 5. sæti deildarinnar með 19 stig og mæta næst Stjörnunni á útivelli í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Fyrri greinGlæsilegar sýningar á fyrsta kvöldi Uppsveitadeildarinnar
Næsta greinGóður sigur Selfyssinga