Sjö marka tap í Póllandi

Einar Sverrisson skoraði átta mörk í leiknum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss tapaði 33-26 í fyrri leiknum gegn Azoty-Pulawy á útivelli í Póllandi í 3. umferð EHF-bikarsins í handbolta í dag. Seinni leikurinn verður á Selfossi eftir viku.

Selfoss byrjaði illa í leiknum og Pólverjarnir voru fljótlega komnir með fimm marka forskot. Þeir vínrauðu hristu úr sér hrollinn þegar fyrstu tíu mínúturnar voru liðnar og náðu að minnka muninn í eitt mark undir lok fyrri hálfleiks en staðan var 16-14 í leikhléi.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og juku forskotið í sjö mörk og gerðu þar með út um leikinn. Munurinn varð mestur níu mörk en Selfoss náði að klóra í bakkann í lokin.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 5, Árni Steinn Steinþórsson 4 og þeir Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson skoruðu báðir 3 mörk.

Seinni leikurinn fer fram í Hleðsluhöllinni á Selfossi næstkomandi laugardag kl. 18:00.

Fyrri grein„Afskaplega hamingjusamur í dag“
Næsta greinDramatískt jafntefli á Selfossi