Sjö marka sigur Selfosskvenna

Kvennalið Selfoss vann stórsigur á Fjölni á útivelli í kvöld í 1. deild kvenna. Lokatölur voru 0-7.

Selfossliðið var miklu betri aðilinn í þessum leik en Fjölnir pakkaði í vörn, spiluðu fast og kýldu boltanum fram. Eins og í öðrum leikjum í sumar var Guðmunda Brynja Óladóttir í strangri gæslu. Fjölniskonur voru duglegar að sparka í hana og lauk því með því að Guðmunda fór af velli upp í sjúkrabíl og beint undir læknishendur, meidd á hné.

Selfoss komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Anítu Lísu Svansdóttur og Guðmundu Brynju.

Yfirburðir Selfoss héldu áfram í síðari hálfleik og sigurinn hefði getað verið mun stærri en raunin varð. Á meðan fengu Fjölniskonur ekki færi í leiknum fyrr en rétt undir lokin.

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir skoraði þriðja mark Selfoss í upphafi síðari hálfleiks og Guðbjörg Una Hallgrímsdóttir bætti fjórða markinu við skömmu síðar. Guðbjörg kom inná sem varamaður fyrir Guðmundu snemma í síðari hálfleik. Íris Sverrisdóttir bætti svo við tveimur mörkum fyrir Selfoss áður en Katrín Ýr innsiglaði sigurinn með sjöunda markinu.

Fyrri greinÁrborg á toppnum eftir sigur á Hvolsvelli
Næsta greinUppboð hjá lögreglunni á föstudaginn