Sjö HSK met í bikarkeppninni

Bikarlið HSK innanhúss 2020. Ljósmynd/HSK

Héraðssambandið Skarphéðinn varð í 5. sæti í bikarkeppninni í frjálsum íþróttum innanhúss sem fram fór í Laugardalshöllinni um síðustu helgi.

HSK sendi ungt en öflugt lið til keppni, sem stóð sig vel. Uppskeran var þrjú brons, fimm HSK met, fjórar bætingar og góð reynsla fyrir þá sem voru að keppa í fyrsta sinn á stóra sviðinu.

Dagur Fannar Einarsson varð þriðji í 60 m grindahlaupi á 8,93 sek sem er nýtt HSK met í 18-19 ára flokki og 20-22 ára flokki. Dagur Fannar var einnig í sveit HSK í 4×200 m boðhlaupi sem varð í 4. sæti á 1:33,82 mín sem er nýtt HSK met í 18-19 ára flokki, 20-22 ára flokki og karlaflokki. Með Degi í sveitinni voru Goði Gnýr Guðjónsson, Sebastian Þór Bjarnason og Sindri Freyr Seim Sigurðsson.

Fjóla Signý Hannesdóttir stóð sig vel að vanda enda reynsluboltinn í liðinu. Hún varð þriðja í 60 m grindahlaupinu á 9,05 sek sem er HSK met í flokki öldunga 30-34 ára. Fjóla setti einnig HSK öldungamet í 400 m hlaupi þar sem hún hljóp á 59,40 sek og varð í 4. sæti.

Hildur Helga Einarsdóttir kastaði 11,10 m í kúluvarpi og varð í þriðja sæti eftir gríðarlega jafna og spennandi keppni.

Í heildarstigakeppninni hlaut HSK 48 stig en FH sigraði með 107 stig eftir harða keppni við ÍR sem hlaut 102 stig.

Boðhlaupssveit karla í 4×200 m hlaupi. (F.v.) Goði Gnýr Guðjónsson, Sebastían Þór Bjarnason, Dagur Fannar Einarsson og Sindri Freyr Seim Sigurðsson. Ljósmynd/HSK
Boðhlaupssveit kvenna í 4×200 m hlaupi. (F.v.) Sunna Kjartansdóttir, Fjóla Signý Hannesdóttir, Erlín Katla Hansdóttir og Birta Sigurborg Úlfarsdóttir. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinBarbára skoraði í þriðja leiknum
Næsta greinUmhverfisvæn áfyllingarstöð opnar á Selfossi