Sjö héraðsmet á Vormóti HSK

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson. Ljósmynd/FRÍ

Sjö héraðsmet voru sett á Vormóti HSK í frjálsum íþróttum, sem haldið var á Selfossvelli í gær.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson bætti HSK metið í 800 m hlaupi í flokki 16-17 ára. Þorvaldur Gauti varð annar í hlaupinu á tímanum 2:02,73 og bætti hann tæplega 26 ára gamalt héraðsmet Auðuns Jóhannssonar, Umf. Þór, um 1,5 sekúndu.

Örn Davíðsson varð annar í spjótkasti karla en hann tvíbætti eigið héraðsmet í karlaflokki og 30-34 ára öldungaflokki. Gömlu metin voru frá því í fyrrasumar, 70,89 metrar en Örn bætti sig um 35 sentimetra í öðru kasti sínu í gær. Hann bætti svo við níu sentimetrum til viðbótar í sínu fimmta kasti, kastaði 71,43 metra.

Þá tvíbætti Bryndís Embla Einarsdóttir eigið héraðsmet í spjótkasti 14 ára stúlkna. Bryndís Embla bætti sig um 40 sm í fyrsta kasti, kastaði 35,98 m og lengdi sig svo um 10 sm í öðru kasti, kastaði 36,08 m. Hún lét þar við sitja í spjótkastskeppninni enda hafði hún tryggt sér bronsverðlaunin.

Sterkir keppendur tóku þátt í Vormótinu og voru FH-ingar aðsópsmiklir á verðlaunapallinum. Keppendur Umf. Selfoss unnu til tveggja gullverðlauna þar sem Vignir Steinarsson og Álfrún Diljá Kristínardóttir sigruðu bæði í sleggjukasti.

Örn Davíðsson og Bryndís Embla Einarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinUppskeruhátíð Smiðjuþráða á listasafninu
Næsta greinJákvæður rekstur í Mýrdalshreppi