„Sjálfstraustið fauk út í Hvítá“

Selfyssingurinn Hlynur Geir Hjartarson var að vonum svekktur að lokinni keppni á Íslandsmótinu í höggleik þar sem hann missti af lestinni á lokasprettinum.

„Þetta eru fyrst og fremst gríðarleg vonbrigði. Ég var að spila mjög vel fyrri níu holurnar í dag og var vel inni í myndinni þá. Vandræðin byrjuðu síðan á tólftu holu þar sem ég fékk skolla og síðan lenti innáhöggið á þeirri þrettándu á vonlausum stað. Eftir það náði ég mér aldrei á strik,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is.

„Ég spilaði 63 góðar holur á mótinu en síðustu sex holurnar í dag voru ekki nógu góðar og það voru mikil vonbrigði að hafa ekki haldið þetta út,“ segir Hlynur og bætir við að langir hringir og mikil bið reyni virkilega á þolinmæðina, sem var af skornum skammti hjá honum í dag.

„Það er fínt að hafa mikið af áhorfendum ég er ekki vanur að hafa fólk gangandi í sjónlínunni hjá mér eða kvabbandi á bakvið. Það var aðeins að trufla og sömuleiðis að hafa myndavél tvo metra frá mér í hverju höggi. Sjálfstraustið var fljótt að fara eftir að ég byrjaði að hiksta og á endanum fauk það út í Hvítá,“ segir Hlynur og bætir við að það hafi verið frekar þungt í honum að lokinni keppni.

„Já, á leiðinni heim langaði mig aldrei aftur í golf en ég var nú farinn að brosa fljótlega að þeirri vitleysu hjá mér. Nú er bara málið að mæta ferskur í næsta mót sem er Íslandsmótið í holukeppni á Akranesi,“ segir Hlynur, léttur að lokum.

Fyrri greinBirgir Leifur og Tinna meistarar
Næsta greinLeitað að stangveiðimanni