„Sjálfsmark er bara kjaftæði“

Arilíus Marteinsson skoraði fyrsta mark Selfyssinga í sigrinum á Haukum. Hann var ánægður með leikinn.

„Þetta var fínn leikur hjá okkur. Við vorum þolinmóðir og gerðum það sem við ætluðum að gera. Við byrjuðum reyndar illa en við vissum að við myndum skora fyrir rest. Markmiðið var bara að halda hreinu,“ sagði Arilíus.

Þrátt fyrir ágætar sóknir var nokkur bið eftir því að Selfyssingar næðu að brjóta ísinn. Arilíus skoraði á 67. mínútu þegar hann tók við fyrirgjöf Sævars Þórs Gíslasonar og skaut knettinum í stöngina, þaðan í Daða markmann og inn. „Dómarinn skrifaði þetta sem sjálfsmark, en það er bara kjaftæði,“ sagði Arilíus glottandi.

„En mark er mark og það skiptir mig svosem engu máli. Við skoruðum á góðum tíma og þeir brotnuðu við það. Þetta var bara sanngjarnt,“ sagði Arilíus að lokum.

Fyrri greinSelfoss – Haukar 3-0
Næsta greinTveggja ára afmæli á 800