Sindri Seim setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi

Sindri Freyr Seim Sigurðsson úr Umf. Heklu setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi í 14 ára flokki á Aðventumóti Ármanns síðastliðinn laugardag.

Hann hljóp á 24,50 sek. og bætti þriggja ára gamalt Íslandsmet Helga Davíðs Péturssonar úr UFA um 0,08 sek. Sindri hefur þar með þríbætt innanhúss HSK metið í 200 metra hlaupi í sínum flokki í ár, en tæplega mánaðargamalt HSK met hans var 24,61 sek. Þess má geta að Sindri hefur samtals sett 11 HSK met í einstaklingsgreinum í ár.

Dagur Fannar Einarsson sem keppir fyrir Selfoss setti HSK met í 400 metra hlaupi á mótinu þegar hann hljóp hringina tvo á 55,05 sek. Jónas Grétarsson átti gamla metið, en Jónas hljóp í mars sl. á 55,79 sek.

Fleiri keppendur af sambandsssvæði HSK tóku þátt og náðu einnig góðum árangri, þó fleiri met hafi ekki litið dagsins ljós.