Sindri Seim og Eva María settu HSK met á Reykjavíkurleikum

HSK/Selfoss átti níu keppendur í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna, fyrr í mánuðinum, auk þess sem Kristinnn Þór Kristinsson var héri í 800 m hlaup karla.

Kristinn Þór hélt uppi hraðanum í hlaupinu fyrri hlutann, en hann gat ekki hlaupið í göddum vegna meiðsla.

Árangur Sunnlendinga á mótinu var með miklum ágætum.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu stórbætti árangur sinn í 600m hlaupi, hljóp á 1:29,88 mín. og varð annar. Hann bætti þar með ársgamalt HSK met Dags Fannars Einarssonar um rúmar fjórar sekúndur í þremur aldursflokkum, þ.e. í 15 ára, 16-17 ára og 18-19 ára flokkum.

Birta Sigurborg Úlfarsdóttir úr Dímon varð í í 2. sæti í 600 metra hlaupi í flokki 15 ára og yngri og hljóp á tímanum 1:46,33 mín. Hún bætti árangur sinn um tæpar 6 sekúndur og var ekki langt frá HSK-metinu.

Eva María Baldursdóttir Selfossi stökk 1,65 metra í hástökki og varð fjórða. Hún bætti ársgamalt HSK met sitt í þessum flokki um einn sentimetra. Hún átti góða tilraun við 1,70m og það er ekki spurning um hvort heldur hvenær hún vippar sér yfir þá hæð.

Guðrún Heiða Bjarnadóttir Selfossi jafnaði sinn besta árangur í langstökki, stökk 5,77m, en hún bætti HSK metið í kvennaflokki í langstökki á dögunum.