Sindratorfæran á Hellu um næstu helgi

Íslandsmeistarinn Skúli Kristjánsson sigraði á Hellu í fyrra. Ljósmynd/Baldur Róbertsson

Sindratorfæran fer fram næsta laugardag, þann 1. maí í Tröllkonugili, rétt austan Hellu. Í ár eru þrjátíu keppendur skráðir til leiks í tveimur flokkum og þarf að fara aftur til ársins 2006 til þess að sjá svo marga keppendur skráða til leiks.

Keppendur hafa nýtt tímann vel í vetur smíðað nýja bíla og lagfært þá eldri. Meðal keppenda er Íslandsmeistarinn og sigurvegarinn frá því í fyrra Skúli Kristjánsson á Simba. Skúli var sigursæll í fyrra og var á palli í flestum keppnum sumarsinns.

Margir úr keppendahópnum hafa keppt í torfæru í fjölda ára og nokkrir að koma til baka eftir nokkurt hlé. Þeirra á með fyrrum Íslandsmeistarinn Jón Örn Ingileifsson en hann keypti Íslandsmeistarabílinn Heklu og ætlar sér allt annað en að vera bara með. Nokkrir keppenda eru að keppa í fyrsta sinn og verður gaman að sjá hvort þeir nái að elta þá reyndari.

Haldin nær óslitið síðan 1973
Það eru Flugbjörgunarsveitin á Hellu og akstursíþróttanefnd Umf. Heklu sem standa að keppninni sem hefur verið haldin nær óslitið síðan 1973. Á keppnissvæðinu eru kjöraðstæður fyrir áhorfendur að tylla sér í brekkurnar og fylgjast með þessum 1.000 hestafla græjum reyna fyrir sér í sandbrekkum, börðum, fleytingum á ánni og í mýrinni.

Torfæra er skemmtun fyrir alla fjölskylduna en síðustu ár hafa um 5.000 þúsund manns verið á svæðinu og allir haft gaman að því að skoða græjurnar og sjá þær svo takast á við brautirnar. Bein útsending verður frá keppninni á Youtube og RÚV 2 fyrir þá sem ekki komast á staðinn. Auðvelt að finna á Youtube með því að leita eftir „Sindratorfæran live“.

Allar upplýsingar um keppnina má finna á Facebook og eins er þar áhugaverður hópur sem heitir Torfæruáhugamenn en þar er hægt að fylgjast með keppendum í undirbúningnum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHalla Hrund – minn forseti
Næsta greinSkemmtileg fimleikahelgi hjá Selfyssingum