Símon og Bergrós ungmenni ársins

Símon Gestur tekur við viðurkenningunni frá Magnúsi B. Þórðarsyni, formanni LSÍ. Ljósmynd/LSÍ

Símon Gestur Ragnarsson og Bergrós Björnsdóttir, bæði úr Umf. Selfoss, voru verðlaunuð þegar Lyftingasamband Íslands verðlaunaði lyftingafólk ársins 2020 í desember síðastliðnum.

Símon Gestur var valinn ungmenni ársins í flokki U20 ára og Bergrós var valin ungmenni ársins í flokki U15 ára.

Símon Gestur er nítján ára gamall og keppir nú í -96 kg flokki, en hann keppti í -89 kg flokki fyrr á árinu 2020. Símon hefur keppt í Ólympískum lyftingum síðan í febrúar 2019 og í dag á hann Íslandsmetið í snörun, bæði í -89 kg flokki junior með 119 kg og í -96 kg flokkum junior og U23 með 121 kg. Símon Gestur varð Norðurlandameistarari í -96 kg flokki 20 ára og yngri í desember síðastliðnum. Besta mót Símons á árinu var á Íslandsmeistaramóti unglinga í -89 kg flokki. Þar setti hann Íslandsmetið í snörun 119 kg og tók 132 kg í jafnhendingu sem skilaði honum 292 Sinclair stigum.

Bergrós keppir í -64 kg flokki en hún hóf að keppa í lyftingum í desember 2019, þá á sínu tólfta aldursári. Bergrós á nú fimm Íslandsmet í U15 og U17 ára flokkum en þau met setti hún á Norðurlandameistaramóti unglinga í desember. Hún setti átta önnur Íslandsmet á árinu en best á hún 65 kg í snörun, 75 kg í jafnhendingu, 140 kg í samanlögðu og 182,6 Sinclair stig. Þess má geta þess að Bergrós, sem er aðeins 13 ára, snarar 1,5 kg yfir eigin líkamsþyngd.

Bergrós tekur við viðurkenningunni frá Magnúsi B. Þórðarsyni, formanni LSÍ. Ljósmynd/LSÍ
Fyrri greinML og FSu áfram í Gettu betur
Næsta grein74 nemendur í Grunnskólanum í Hveragerði í sóttkví