Silfur og brons til sunnlensku keppendanna

Birta Sif, Anna María, Eysteinn Máni, Tanja og Margrét fagna góðum árangri á EM í Portúgal. sunnlenska.is/BKI

Íslensku landsliðin í hópfimleikum náðu frábærum árangri á Evrópumótinu í hópfimleikum sem haldið var í Portúgal um helgina.

Sunnlendingar áttu að sjálfsögðu sína fulltrúa í landsliðunum. Margrét Lúðvígsdóttir var í kvennaliðinu sem vann silfurverðlaun og var hársbreidd frá gullinu eftir harða keppni við Svía.

Hekla Björt Birkisdóttir var fyrirliði stúlknaliðsins sem vann bronsverðlaun og Anna María Steingrímsdóttir og Eysteinn Máni Oddsson voru í blönduðu liði fullorðinna sem einnig vann bronsverðlaun.

Þá var Birta Sif Sævarsdóttir var í blönduðu liði unglinga sem náði mjög góðum árangri og varð í 4. sæti með ungt og efnilegt lið.

Birta Sif er sú eina af þessum íþróttamönnum sem æfir með fimleikadeild Selfoss, Margrét og Eysteinn æfa með Gerplu og Hekla Björt og Anna María með Stjörnunni.

Fimleikadeild Selfoss átti hins vegar fleiri fulltrúa í Portúgal því Tanja Birgisdóttir þjálfar blandað lið fullorðinna, Olga Bjarnadóttir var dómari á mótinu og Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir starfaði fyrir Fimleikasamband Íslands á mótinu.

Fyrri greinStúlkurnar eru fundnar
Næsta greinJón Daði bauð liðsfélögum sínum sviðasultu