Silfrið á Selfoss

Lið meistaraflokks Selfoss varð í 2. sæti á bikarmóti FSÍ í hópfimleikum sem fram fór í Iðu á Selfossi í dag.

Fyrirfram var búist við harðri keppni Selfoss og Stjörnunnar um 2. sætið en lið Gerplu 1 átti sigurinn vísan eins og raunin varð. Gerpla 2 skaut hins vegar Stjörnustúlkum ref fyrir rass og náði 3. sætinu.

Gerpla 1 sigraði með 47,60 stig, Selfoss hlaut 45,73 stig og fengu m.a. 15,58 stig fyrir frábærar gólfæfingar. Gerpla 2 hlaut 44,10 stig í 3. sæti en Stjarnan var með 43,525 stig í 4. sæti eftir slakan árangur á trampólíni. Lið Keflavíkur rak svo lestina með 33,2 stig.

Mótið í dag var hið fyrsta af þremur úrtökumótum fyrir Norðurlandamótið í hópfimleikum en tvö lið fara frá Íslandi á það mót.