Sigursteinn og Alfa töltmeistarar

Sleipnismaðurinn Sigursteinn Sumarliðason og Alfa frá Blesastöðum 1A sigruðu með yfirburðum í tölti á Íslandsmótinu í hestaíþróttum sem lauk á Selfossi í dag.

Sigursteinn og Alfa fengu einkunnina 9,00 en næst þeim komu Sigurður Sigurðarson, Geysi, og Kjarnorka frá Kálfholti með 8,61.

Jakob Svavar Sigurðsson og Árborg frá Miðey urðu í þriðja sæti með 8,39 og höfðu betur í hlutkesti gegn Söru Ástþórsdóttur, Sleipni, og Dívu frá Álfhólum sem fengu sömu einkunn.

Hinrik Bragason og Sigur frá Hólabaki urðu í fimmta sæti með 8,28 og Sigurbjörn Bárðarson og Jarl frá Mið-Fossum í því sjötta með 8,00 í einkunn.

Í slaktaumatölti sigruðu Jakob Svavar Sigurðsson og Alur frá Lundum II með einkunnina 8,50. Eyjólfur Þorsteinsson og Ósk frá Þinganesi fengu sömu einkunn en dómarar settu þau í 2. sæti.

Fyrri greinSelfyssingar semja við Norðmann
Næsta greinBílarnir keyra yfir brúna