Sigurmarkið beint af æfingasvæðinu

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði eina mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann dýrmætan sigur á Keflavík í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld, 3-2.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög lélegur hjá okkur og við höfum ekkert efni á því að mæta svona inn í leiki í þessari deild. Það var eins gott að við komum brjálaðar út í seinni hálfleikinn,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hún reyndist bjargvættur Selfyssinga, lagði upp jöfnunarmarkið 2-2 og skoraði sigurmarkið á ögurstundu með frábærum skalla.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er ég búin að vera að gera þetta á æfingasvæðinu. Ég fór ekkert í ákveðið hlaup, ég bara ætlaði mér að taka boltann og mætti á réttan stað á réttum tíma,“ sagði Hólmfríður hógvær.

Svart og hvítt í fyrri og seinni
Barbára Sól Gísladóttir kom Selfossi yfir strax á 3. mínútu þegar hún lyfti boltanum yfir markvörð gestanna eftir góða sendingu frá Evu Lind Elíasdóttur. Þetta var eina framlag Selfyssinga í fyrri hálfleik en Keflavík tók leikinn yfir í framhaldinu og Sophie Groff og Sveindís Jane Jónsdóttir skoruðu með fimm mínútna millibili þegar nálgaðist hálfleik, 1-2 í leikhléi.

Selfossliðið mætti betur stemmt inn í seinni hálfleikinn eftir „hvassa“ ræðu frá Alfreð Elías Jóhannssyni, þjálfara.  Vendipunkt­ur­inn í leikn­um var svo inn­koma Hólm­fríðar Magnús­dótt­ur á 66. mín­útu. Hún var aðeins fjór­ar mín­út­ur að leggja upp mark fyr­ir Grace Rapp sem skoraði af stuttu færi á 70. mínútu.

Eftir það var leikurinn jafn og bæði lið leituðu að sigurmarkinu án þess þó að fá dauðafæri. Það var svo á 90. mínútu að Selfyssingar fengu hornspyrnu frá hægri. Magdalena Reimus kom með þennan fína bolta inn á teiginn og Hólmfríður stangaði hann af krafti í netið á fjærstönginni.

Selfoss hefur nú 6 stig og er í 6. sæti deildarinnar en Keflavík er á botninum án stiga.

Fyrri greinHamar afgreiddi Fenri í seinni hálfleik
Næsta greinNáðhús í Þorlákshöfn ónýtt eftir eld