Sigurmarkið á síðustu stundu

Ægir fór upp í 2. sætið í B-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu með 0-1 sigri á KFR á Hvolsvelli í kvöld. Milan Djurovic skoraði sigurmarkið á 90. mínútu.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Rangæingar áttu ágætis spretti og fengu meðal annars vítaspyrnu. Andrezej Jakimczvk fór á vítapunktinn en Hlynur Kárason gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

Staðan var 0-0 í hálfleik en leikurinn opnaðist meira í seinni hálfleik og Ægismenn réðu ferðinni þó að KFR hafi átt ágætis sóknir inn á milli.

Allt stefndi í markalaust jafntefli þangað til á 90. mínútu að varamaðurinn Milan Djurovic skallaði boltann í netið og tryggði Ægismönnum sætan sigur.

KFR og Ægir eru jöfn í 2. – 3. sæti með 16 stig og sama markahlutfall en Ægir hefur skorað fleiri mörk og situr því ofar á töflunni. KV er í 4. sæti með 15 stig og á leik til góða.

Fyrri greinVeiðin að glæðast í Rangánum
Næsta greinÁrborg steinlá heima