Sigurmark í blálokin í Hafnarfirði

Hákon Garri Gestsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss 2 heimsótti ÍH í 1. deild karla í handbolta í Hafnarfjörðinn í dag. Alls skoruðu liðin 81 mark í leiknum en sigurinn féll ÍH megin, 41-40.

ÍH tók snemma frumkvæðið í fyrri hálfleiknum og leiddi með 2-3 mörkum en Selfoss 2 skoraði tvö síðustu mörkin í hálfleiknum og staðan var 21-21 í leikhléi.

Það var sama markaveislan í seinni hálfleik og jafnt á flestum tölum þangað til í lokin að ÍH náði tveggja marka forystu, 38-36. Selfyssingar jöfnuðu 40-40 þegar tæp hálf mínúta var eftir en ÍH átti lokaorðið og tryggði sér eins marks sigur í blálokin.

Hákon Garri Gestsson var markahæstur Selfyssinga með 16 mörk, Skarphéðinn Steinn Sveinsson, Jónas Karl Gunnlaugsson, Dagur Rafn Gíslason og Bjarni Valur Bjarnason skoruðu allir 4 mörk, Bartosz Galeski og Ragnar Hilmarsson 3 og Daði Fannar Jónsson 2.

Ísak Kristinn Jónsson varði 4 skot í marki Selfoss og Egill Eyvindur Þorsteinsson 2.

Selfoss 2 er í 7. sæti deildarinnar með 14 stig en ÍH er í 10. sæti með 8 stig.

Fyrri greinSunnlenskt hugbúnaðarfyrirtæki slær í gegn
Næsta greinGuinn með risaþrennu og Hamar/Þór flaug áfram