Sigurmark gestanna í uppbótartíma

KFR og Huginn áttust við í hörkuleik í 3. deild karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í dag. Lokatölur voru 2-3 en gestirnir skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma.

Huginsmenn voru ferskari í upphafi og eftir tæpan hálftíma voru þeir komnir með 0-2 forystu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn virtist allt stefna í sigur gestanna en Rangæingar voru ekki hættir og náðu þeir að jafna metin með tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla. Styrmir Erlendsson minnkaði muninn á 76. mínútu og Andri Freyr Björnsson jafnaði svo metin á 80. mínútu, 2-2.

Lokamínúturnar voru spennandi en þegar ein mínúta var komin framyfir venjulegan leiktíma komu gestirnir boltanum í netið beint úr aukaspyrnu. Rangæingar voru mjög ósáttir við aukaspyrnudóminn en dómaranum var ekki haggað og gestirnir tryggðu sér sigurinn úr aukaspyrnunni.

Fyrri greinLoksins sigur hjá Árborg
Næsta greinSextán grunnskólamet slegin