Sigurkarfan kom úr skrúðgarðinum

Tómas Valur Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar sigruðu Njarðvík 95-92 í háspennuleik í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Þórsarar jöfnuðu þar með 1-1 í einvíginu.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur. Þórsarar byrjuðu frábærlega, komust í 19-6 og leiddu 30-19 eftir 1. leikhluta. Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 2. leikhluta og staðan var 48-46 í hálfleik.

Þór náði aftur tíu stiga forskoti í 3. leikhluta en Njarðvíkinga önduðu niður um hálsmálið á þeim allan tímann. Gestirnir áttu góðan sprett í 4. leikhluta og komust yfir í fyrsta skipti, 83-85, þegar tæpar þrjár og hálf mínútur voru eftir á klukkunni.

Lokakaflinn var æsispennandi en þar reyndust Þórsarar sterkari. Tómas Valur Þrastarson gerði út um leikinn með þriggja stiga körfu úr vonlausri stöðu utan úr skrúðgarði þegar níu sekúndur voru eftir, 93-89, og í kjölfarið misstu Njarðvíkingar boltann og Þórsarar fögnuðu vel.

Nigel Pruitt var stigahæstur Þórsara með 25 stig, Tómas Valur skoraði 18 og tók 7 fráköst, Jordan Semple skoraði 14 stig og tók 8 fráköst, Jose Medina og Fotios Lampropoulos skoruðu sitthvor 13 stigin og Darwin Davis skoraði 12 stig.

Fyrri greinStór sinueldur í Tjarnabyggð
Næsta greinFjórir umsækjendur um skólastjórastarf