Sigurjón Ægir vann gullverðlaun í Litháen

Sigurjón Ægir á verðlaunapalli í Litháen. Ljósmynd/Alþjóða kraftlyftingasambandið

Í tengslum við heimsmeistaramótið í kraftlyftingum með búnaði, sem haldið var í Litháen fyrr í mánuðinum, var haldið kraftlyftingamót á vegum Alþjóða kraftlyftingasambandsins og Special Olympics.

Suðramaðurinn Sigurjón Ægir Ólafsson var fulltrúi Íslands á þessu móti kom hann heim með gullverðlaun eftir frábærar lyftur. Ægir hefur vakið mikla athygli fyrir afrek sín í íþróttinni og mótið í Litháen var engin undantekning.

Ægir, sem keppir í -93 kg flokki, er alltaf að bæta sig og kemur reynslunni ríkari heim af mótinu þar sem hann tók 45 kg í hnébeygju, 45 kg í bekkpressu og 85 kg í réttstöðulyftu og lyfti því samanlagt 175 kg. Í samtali við sunnlenska.is sagði Sigurjón Ægir að hann væri virkilega ánægður með árangurinn og mótið í heild sinni. Honum var boðið þangað með landsliði Kraftlyftingasambands Íslands eftir frábæran árangur á Heimsleikum Special Olympics í sumar.

Íslenski þjóðsöngurinn hljómaði í keppnishöllinni í Litháen, þar sem Ægir stóð einn á palli en í færslu frá Special Olympics Iceland segir að þrátt fyrir mikla leit hafi ekki fundist aðrir keppendur sem gætu keppt í sama flokki alþjóðlega. Sennilega af því engum dettur í hug að það sé hægt!

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá mótinu, frá Alþjóða kraftlyftingasambandinu, þar sem Sigurjón Ægir er meðal annars ásamt Örvari Arnarssyni, þjálfara sínum.

Ljósmynd/Alþjóða kraftlyftingasambandið
Ljósmynd/Alþjóða kraftlyftingasambandið
Ljósmynd/Alþjóða kraftlyftingasambandið
Fyrri greinHamar/Þór tapaði í Vesturbænum
Næsta grein„Það er brjálað að gera hjá okkur“