Sigurinn hékk á bláþræði í Eyjum

Hergeir Grímsson skoraði fjögur mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu dramatískan sigur á ÍBV í Suðurlandsslag í Olísdeild karla í handbolta, 26-27, á útivelli í Vestmanneyjum í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og liðin skiptust á um að halda forystunni. Selfyssingar leiddu 12-14 í hálfleik og náðu svo fjögurra marka forskoti strax í upphafi seinni hálfleiks.

Eyjamenn gáfust ekki upp og jöfnuðu 20-20 þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður og komust svo einu marki yfir en á síðustu tíu mínútunum skoruðu Selfyssingar fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 21-25, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Leikurinn var þó langt frá því að vera búinn því Eyjamenn spiluðu ákafa vörn á lokamínútunum og náðu að minnka muninn í 26-27. ÍBV átti síðustu sókn leiksins með nægan tíma á klukkunni en lokaskotið fór í gólfið og þverslána úr opnu færi af línunni.

Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 9/7 mörk, Einar Sverrisson skoraði 7, Ragnar Jóhannsson 5, Guðjón Baldur Ómarsson og Nökkvi Dan Elliðason 2 og þeir Gunnar Flosi Grétarsson og Magnús Öder Einarsson skoruðu 1 mark hvor.

Vilius Rasimas varði 9 skot í marki Selfoss og var með 27% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði eitt vítaskot og var með 33% markvörslu.

Selfyssingar eru komnir upp í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og mæta næst Val í Hleðsluhöllinni á þriðjudaginn, en Valur er í 4. sæti deildarinnar.

Fyrri greinHamri dæmdur sigur gegn Hrunamönnum
Næsta greinStór skimun á Flúðum á þriðjudag