Sigurinn aldrei í hættu

Sveinn Aron Sveinsson var markahæstur Selfyssinga. Ljósmynd/Selfoss handbolti - Sigurður Ástgeirsson

Selfyssingar eru komnir upp í 3. sæti úrvalsdeildar karla í handbolta eftir auðveldan sigur á botnliði ÍR á útivelli í kvöld.

Selfoss skoraði fjögur fyrstu mörkin í leiknum og náði mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik. Staðan var 7-14 í leikhléi.

Selfyssingar létu kné fylgja kviði í seinni hálfleik og náðu strax tíu marka forystu. Sigurinn var aldrei í hættu og Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari gat nýtt sér allan leikmannahópinn, sem veitir ekki af í leikjatörn febrúarmánaðar. Lokatölur urðu 18-28.

Sveinn Aron Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, þar af komu 6 úr vítaskotum. Ragnar Jóhannsson skoraði 5, Atli Ævar Ingólfsson og Hergeir Grímsson 4, Einar Sverrisson 3, Nökkvi Dan Elliðason 2 og þeir Tryggvi Þórisson, Hannes Höskuldsson og Arnór Logi Hákonarson skoruðu allir 1 mark.

Vilius Rasimas var góður í markinu hjá Selfyssingum, varði 13/1 skot og var með 48% markvörslu. Alexander Hrafnkelsson stóð sig sömuleiðis vel, varði 3/2 skot og var með 50% markvörslu.

Fyrri greinÞórsarar áfram á siglingu
Næsta greinBókamarkaður í bókasafninu á Selfossi