Sigurganga Selfosskvenna heldur áfram

Kvennalið Selfoss vann stórsigur þegar liðið mætti Fjarðabyggð/Leikni á Eskifirði í kvöld í 1. deild kvenna. Lokatölur voru 0-7.

„Þetta var fínn leikur hjá okkur og mjög sannfærandi sigur. Við vorum reyndar manni fleiri frá 30. mínútu og þá var staðan 0-2 en við höfðum góð tök á leiknum allan tímann,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is.

Systurnar Anna María og Katrín Ýr Friðgeirsdætur skoruðu fyrstu tvö mörk Selfoss og staðan var 0-2 í hálfleik. Katrín bætti síðan við þremur mörkum í síðari hálfleik og Anna María einu auk þess sem Eva Lind Elíasdóttir skoraði eitt mark.

Fyrri leikur liðanna var um síðustu helgi og var sigur Selfyssinga nokkuð torsóttur þá, þó að lokatölur hafi verið 5-1. Helena segir að hugarfar liðsins hafi verið betra fyrir leikinn í kvöld. „Það var ferlega fínt að mæta þeim strax viku seinna. Selfoss var í vandræðum með að klára útileikinn hérna í fyrra þannig að við mættum vel innstilltar í leikinn í kvöld.“

Selfossliðið er áfram taplaust á toppi B-riðils með 24 stig. Liðið heldur sig fyrir austan um helgina og mætir botnliði Hattar á Egilsstöðum á sunnudaginn.