Sigurganga Selfoss heldur áfram

Valdís Una skoraði 15 stig og tók 4 fráköst. Ljósmynd: Selfoss karfa/BRV

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á Njarðvík-b þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í dag. Lokatölur í Njarðvík urðu 52-78.

Selfoss byrjaði betur í leiknum, komst í 9-20 en Njarðvík-b átti góðan endasprett í 1. leikhluta og staðan var 19-22 að honum loknum. Í 2. leikhluta skoraði Selfoss fyrstu þrettán stigin og spilaði frábæra vörn allan leikhlutann, þannig að staðan var orðin 24-46 í hálfleik.

Í 3. leikhluta gerði Selfoss út um leikinn með góðum kafla um miðbik leikhlutans en þegar 4. leikhluti hófst var staðan orðin 39-64 og úrslitin ráðin.

Mathilde Sorensen var stigahæst Selfyssinga með 23 stig, Valdís Una Guðmannsdóttir skoraði 15 en Jessica Tomasetti var besti maður vallarins með þrefalda tvennu; 12 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar.

Selfoss er í toppsæti deildarinnar með 8 stig en Njarðvík-b er í 6. sæti með 4 stig.

Fyrri greinBerserkir sigruðu í Stóru LEGO-keppni grunnskólanna
Næsta greinWolt hefur samstarf við Ísbúð Huppu