
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu. Um er að ræða 50% starf.
Sigurður, eða Siggi eins og hann er alltaf kallaður, hefur verið viðloðandi íþróttastarf innan USVS frá árinu 2017 og komið að fjölbreyttum verkefnum. Má þar m.a. nefna að hann starfaði við knattspyrnuþjálfun hjá Umf. Kötlu og síðar hjá Ungmennafélögunum Ármanni og Skafta sem sameinuðust í Umf. ÁS. Hann hefur verið í fararstjórn USVS á Smábæjaleikunum og á Unglingalandsmótum UMFÍ undanfarin ár. Nú síðast starfaði hann sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í Skaftárhreppi.
„Það er með mikilli tilhlökkun og þakklæti sem ég tek við starfi framkvæmdastjóra. Ég mun svo sannarlega leggja mig allan fram við að efla USVS og veita aðildarfélögunum sem besta þjónustu. Ég hlakka mikið til þess starfs sem framundan er,“ sagði Sigurður við undirskriftina.
Sigurður er sem stendur búsettur á Akureyri þar sem hann er í námi en hann verður með reglulega viðveru á starfssvæði sambandsins.
