Sigurbjörn og Kristinn Þór Íslandsmeistarar

Meistaramót Íslands fullorðinna, var haldið á Kópavogsvelli helgina 25. – 26. júlí sl. HSK SELFOSS sendi 11 keppendur til leiks sem stóðu sig með miklum ágætum.

Afrakstur helgarinnar var: tvö gull, fjögur silfur og fjögur brons.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson úr Laugdælum varð Íslandsmeistari í 1.500 metra hlaupi karla. Þetta verða að teljast nokkur tíðindi, þar sem Sigurbjörn er orðinn fertugur. Sigurbjörn hljóp á 4;10.36 mín og bætti íslandsmet öldunga í flokki 40 – 44 ára um sjö sekúndur. Þá bætti hann HSK metið um 36 sek.

Kristinn Þór Kristinsson úr Samhygð varð einnig Íslandsmeistari, en hann vann 800 metra hlaup karla örugglega á tímanum 1;53,03 mín. Hann varð svo þriðji í 400 m hlaupi á 50,42 sek.

Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi setti HSK met í sleggjukasti í 18-19 ára flokki og einnig í flokki 20 – 22 ára þegar hún kastaði 40,09 metra og bætti tveggja ára gamalt met Evu Lindar Elíasdóttur um rúma tvo metra. Thelma er í stöðugri framför og HSK met Guðbjargar Viðarsdóttur, 41.46 metrar, er í hættu.

Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi vann þrenn verðlaun á mótinu. Hún varð önnur í 100 m grindahlaupi á 15,17 sek, önnur í langstökki með 5,30 metra og þriðja í 400 grind á 64,39 sek.

Þorsteinn Magnússon úr Dímon varð annar í 3.000 metra hindrunarhlaupi á 11;17,09 mín. sem er HSK met í flokki 40 – 44 ára.

Harpa Svansdóttir Selfossi varð önnur í þrístökki á nýju persónulegu meti, hún stökk 10,58 metra.

Ástþór Jón Tryggvason Selfossi vann tvenn bronsverðlaun á móti, í 5.000 metra hlaupi á 18;31,58 mín. og í 3.000 m hindrunarhlaupi á 11;26,91 mín.

Fyrri greinBúist við stormi á miðvikudag
Næsta grein400. lax sumarsins í Ölfusá