Sigur í sex stiga leik – KFR tapaði

Ægir vann gríðarlega mikilvægan sigur á KV í 2. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan KFR tapaði fyrir Kára í 3. deildinni.

Ægir og KV eru í harðri fallbaráttu en fyrir leikinn var KV með 17 stig í 10. sæti og Ægir með 14 stig í 11. sæti. Leikurinn var markalaus lengst af, en Magnús Bjarnason skoraði eina mark leiksins þegar þrjár mínútur voru eftir og tryggði Ægi mikilvæg þrjú stig.

Liðin eru nú jöfn að stigum en KV með betra markahlutfall, svo munar sex mörkum.

Ægir á eftir að mæta botnliði KF úti, Völsungi úti og Magna heima. KV á eftir að mæta Völsungi heima, Magna úti og Sindra heima.

KFR tapaði á Skaganum
Á Akranesi mættust Kári og KFR. Káramenn komust yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks en Sigurður Skúli Benediktsson jafnaði metin fyrir KFR á fimmtu mínútu síðari hálfleiks. Kári náði svo að knýja fram sigur á 74. mínútu og lokatölur urðu 2-1.

Næsti leikur KFR er sá mikilvægasti í sumar, þegar Dalvík/Reynir kemur í heimsókn næsta laugardag. Ef KFR tapar leiknum er liðið fallið, en nái það í stig munu úrslitin ráðast í lokaumferðinni.

Eftir leiki dagsins er Dalvík/Reynir með 14 stig í 8. sæti, KFR með 12 stig í 9. sæti en KFR er fallið, í botnsætinu með 6 stig.