Sigur í fyrsta leik

Keppni í 1. deild karla í körfubolta hófst í kvöld þegar Hamar heimsótti Val að Hlíðarenda. Hvergerðingar unnu góðan sigur, 71-83.

Hvergerðingar byrjuðu vel í leiknum og voru komnir í 4-13 eftir tæpar sex mínútur. Hamar skoraði síðustu fimm stigin í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 10-24.

Halldór Gunnar Jónsson negldi niður tveimur þristum í upphafi 2. leikhluta og Hvergerðingar voru þá komnir með tuttugu stiga forskot, 12-32. Þá tóku Valsmenn heldur betur við sér skoruðu 16 stig í röð í upphafi 20-3 áhlaups. Þá var munurinn orðinn þrjú stig, 32-35 en Hamar leiddi 34-39 í hálfleik.

Hamarsmenn voru hressir í upphafi síðari hálfleiks og náðu 3-20 áhlaupi þar sem Julian Nelson lék á alls oddi. Valur klóraði í bakkann í kjölfarið og staðan var 50-64 þegar fjórði leikhluti hófst. Hamar náði nítján stiga forskoti í upphafi fjórða leikhluta en Valsmenn þjörmuðu að Hvergerðingum þegar leið á leikhlutann og náðu að minnka muninn niður í sex stig, 71-77. Snorri Þorvaldsson og Julian Nelson tóku það hins vegar að sér að raða niður sex vítaskotum á lokamínútunni á meðan Valsmenn nýttu ekki sínar sóknir og lokatölur urðu 71-83.

Nelson var stigahæstur Hvergerðinga með 29 stig, Halldór Gunnar skoraði 15, Þorsteinn Gunnlaugsson 12 auk þess að taka 23 fráköst, Örn Sigurðarson skoraði 11 stig, Snorri 8, Bjartmar Halldórsson 5 og Kristinn Ólafsson 3.

Keppni í 1. deildinni er með nýju sniði en að þessu sinni skipa átta lið deildina og verður spiluð þreföld umferð. Toppliðið fer beint upp í úrvalsdeildina en liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um laust sæti í efstu deild. Engin lið munu falla úr deildinni að þessu sinni.

Fyrri greinFöstudagur: Gasmengun um stærstan hluta Suðurlands
Næsta greinLónið við jökulinn er 40 metra djúpt