Sigur hjá Ægi – Selfoss sótti jafntefli

Aron Fannar Birgisson í baráttunni um boltann í leik Selfoss og Augnabliks í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann góðan sigur á Hvíta riddaranum í B-deild deildarbikars karla í knattspyrnu í dag. Selfoss náði jafntefli gegn Augnabliki.

Ægir heimsótti Hvíta riddarann á Malbiksstöðina í Mosfellssveit og þar skoruðu heimamenn eina mark fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu. Ægismenn tóku við sér í seinni hálfleik. Dimitrije Cokic jafnaði á 57. mínútu og tíu mínútum síðar kom Aron Fannar Hreinsson þeim gulu yfir. Atli Rafn Guðbjartsson gulltryggði svo 1-3 sigur Ægis þremur mínútum fyrir leikslok.

Á Selfossvelli gerðu Selfoss og Augnablik 2-2 jafntefli. Selfyssingar lentu 0-2 undir í leiknum því Augnablikar skoruðu snemma leiks og bættu svo við öðru marki eftir korter í seinni hálfleik. Þeir vínrauðu lögðu ekki árar í bát. Jón Vignir Pétursson minnkaði muninn á 86. mínútu og Elías Karl Heiðarsson jafnaði svo metin á fimmtu mínútu uppbótartímans og tryggði Selfyssingum jafnteflið.

Í riðli-1 í B- deildinni er Selfoss í 3. sæti með 2 stig og í riðli-3 er Ægir í 3. sæti með 3 stig.

Fyrri greinGet ekki horft á fólk bursta í sér tennurnar
Næsta greinÖruggur sigur gegn botnliðinu