Sigur hjá Þór sem mætir Grindavík í úrslitakeppninni

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Njarðvík í lokaumferð Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld, 83-70. Þór mætir Grindavík í 8-liða úrslitum.

Þórsarar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 44-36. Seinni hálfleikurinn var jafn og gestirnir náðu að minnka muninn í eitt stig þegar fjórar mínútur voru liðnar af 4. leikhluta, 66-65. Þá settu Þórsarar undir sig hausinn og kláruðu leikinn af öryggi.

Þór lauk leik í 5. sæti deildarinnar og mætir því liðinu í 4. sæti í úrslitakeppninni. Þar sitja nágrannarnir í Grindavík og eiga þeir heimaleikjaréttinn. Það verður því baráttan um Suðurstrandarveginn í 8-liða úrslitunum. Úrslitakeppnin hefst þann 15. mars.

Tölfræði Þórs: Tobin Carberry 22 stig/10 fráköst, Maciej Baginski 16 stig/8 fráköst, Ólafur Jónsson 16 stig, Halldór Hermannsson 13 stig, Grétar Ingi Erlendsson 6 stig, Emil Karel Einarsson 6 stig/6 fráköst, Ragnar Bragason 4 stig/5 fráköst.

Fyrri grein„Vantaði gífurlega lítið upp á“
Næsta greinHéraðsþing í Hveragerði á laugardag