Sigur FSu hékk á bláþræði

Það var heldur betur spenna þegar FSu vann sætan sigur á Snæfelli í 1. deild karla í körfubolta í Stykkishólmi í dag. Lokatölur urðu 100-101.

Fyrri hálfleikur var jafn en FSu náði örlitlu forskoti fyrir hálfleik og staðan var 48-52 í leikhléi. FSu byrjaði betur í seinni hálfleiknum og staðan í upphafi 4. leikhluta var 65-76.

Snæfellingar nöguðu hins vegar forskotið jafnt og þétt niður í síðasta fjórðungnum. Þegar fimmtán sekúndur voru eftir af leiknum komust heimamenn yfir, 100-99, með skoti af vítalínunni en Antowine Lamb kom FSu yfir augnabliki síðar og síðasta skot Snæfellinga geigaði.

FSu vann þarna sinn þriðja sigur í deildinni í vetur en liðið er áfram í 8. sæti, nú með 6 stig.

Antonine Lamb, Ari Gylfason og Florijan Jovanov áttu allir fínan leik fyrir FSu og Hlynur Hreinsson sömuleiðis, en hann var með 83% nýtingu úr þriggja stiga skotum. Ari og Florijan stóðu honum reyndar ekki langt að baki í þeim efnum, með 78 og 75 prósent.

Tölfræði FSu: Antowine Lamb 30/5 fráköst, Ari Gylfason 25/6 fráköst/5 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 17/6 stoðsendingar, Florijan Jovanov 15/8 fráköst/6 stoðsendingar, Bjarni Bjarnason 5, Svavar Ingi Stefánsson 4, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 3, Maciek Klimaszewski 2.

Fyrri greinAllt á floti á Biskupstungnabraut
Næsta greinIngunn sótti ferðamenn á hótel