Sigurður Eyberg hættur hjá Selfyssingum

Varnarmaðurinn Sigurður Eyberg Guðlaugsson er hættur að spila með 1. deildarliði Selfoss í knattspyrnu. Sigurður er 23 ára gamall og hefur leikið allan sinn feril hjá Selfossi.

„Ég hefði gjarnan viljað fá að spila meira í sumar og eftir að ég var ekki valinn í leikmannahópinn á móti KA um síðustu helgi þá fór ég fram á að rifta samningi mínum við Selfoss,“ sagði Sigurður í samtali við sunnlenska.is. Hann hefur komið við sögu í sex leikjum af tólf í 1. deildinni í sumar.

„Selfoss er auðvitað minn uppeldisklúbbur og ég er búinn að njóta þess mikið að spila fyrir félagið en nú er kominn tími til að leita á önnur mið og vonandi kemur eitthvað skemmtilegt út úr því.“

Sigurður lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Selfoss sextán ára gamall og eru leikirnir nú orðnir vel á annað hundrað fyrir félagið.

Fyrri greinMalbikað austan við Selfoss
Næsta greinGestur númer 100.000 á Þorvaldseyri