Sigurþór efstur fyrir lokahringinn

Sigurþór Jónsson, Golfklúbbi Selfoss, leiðir keppnina á Securitas-mótinu í golfi sem haldið er á Kiðjabergi um helgina. Mótið er fimmta og næstsíðasta umferð Eimskipsmótaraðarinnar.

Sigurþór er á einu höggi undir pari eftir 36 holur en hann lék á 71 höggi í dag, eða pari vallarins. Hann er einu höggi á undan þeim Ólafi Birni Loftssyni úr Nesklúbbnum og Einari Hauki Óskarssyni úr Keili.

Hlynur Geir Hjartarson, GOS, lék á 75 höggum í dag og er í 8.-9. sæti en Hlynur var í 2. sæti mótaraðarinnar fyrir mótið um helgina.

Guðjón Baldur Gunnarsson, GKB, er í 19. sæti og Andri Már Óskarson, GHR, er í 20.-21. sæti. Guðjón lék á 80 höggum í dag og er samtals á 14 yfir pari en Andri lék á 78 höggum og er á 15 höggum yfir pari.

Aðstæður voru mjög fínar í dag og Kiðjabergsvöllur er í frábæru ásigkomulagi um þessar mundir.