Sigruðu með 88 stiga mun

Hamarskonur flugu inn í 8-liða úrslit Poweradebikarsins í körfubolta með stórsigri á Þór á Akureyri í gær. Hamar sigraði 27-115.

Fyrirfram var vitað að þessi leikur yrði ójafn þar sem Hamar leikur í úrvalsdeild en Þórskonur taka ekki þátt í deildarkeppni í vetur. Þetta var því eini leikur meistaraflokks Þórs á þessu tímabili.

Hamar náði strax öruggri forystu og hélt uppi stífri pressu allan leikinn. Hið unga Þórslið átti aldrei möguleika en gafst þó aldrei upp og sýndi fína baráttu á köflum.

Samantha Murphy skoraði 33 stig fyrir Hamar, Katherine Graham 16, Marín Laufey Davíðsdóttir 14, Íris Ásgeirsdóttir 13 og Álfhildur Þorsteinsdóttir 12.