Sigmundur bætti sig í Járnkarlinum

Selfyssingurinn Sigmundur Stefánsson keppti í þríþrautarkeppninni Challenge Copenhagen í Kaupmannahöfn á laugardaginn.

Þríþrautin felst í því að synda 3,8 km í sjó, hjóla 180 km og hlaupa maraþonhlaup – sleitulaust.

Keppnin gengur undir nafninu Járnkarlinn en Sigmundur keppti í fyrsta sinn í slíkri keppni í Þýskalandi árið 2008. Hann bætti sig um tíu mínútur í Kaupmannahöfn um helgina og kom í mark þriðji í sínum flokki, 55-59 ára karla.

Tími Sigmundar var 10:37:37 klukkustundir og kom hann í mark tæpum þrettán mínútum á eftir heimamanninum Ole Hansen sem sigraði í flokknum.

Þess má geta að sigurvegari heildarkeppninnar í karlaflokki, Ástralinn Tim Berkel, fór brautina á 8:07:39 klst.