„Siggi Eyberg er aðalkallinn“

„Þetta er alveg yndislegt, gaman að skora þrennu um leið og liðið fer upp fyrir framan alla þessa Selfyssinga í stúkunni.“

Þetta sagði markaskorarinn Viðar Örn Kjartansson í samtali við sunnlenska.is eftir sigurinn á ÍR í Breiðholtinu í dag.

„Það er virkilega gaman að sjá hvað það er vel mætt á völlinn. Það voru 90% Selfyssingar í stúkunni og þetta er líklega betri mæting en er búin að vera á heimaleikina hjá okkur,“ sagði Viðar og bætti við að Selfyssingar hafi mætt stresslausir í leikinn.

„Við vissum það fyrir leikinn að við værum ekkert komnir upp. Við vorum búnir að vinna okkur í góða stöðu fyrir leikinn en stemmningin var bara létt í klefanum og brandararnir flugu. Siggi Eyberg er aðalkallinn í hópnum og hann hélt uppi gleðinni í klefanum.“

Síðasta mark Viðars í dag var hans fjórtánda í sumar og er hann í harðri baráttu um markakóngstitilinni í 1. deildinni. Skagamaðurinn Hjörtur Hjartarson skoraði þrennu á 15 mínútum fyrir ÍA í dag og Sveinbjörn Jónasson skoraði tvö fyrir Þrótt í 3-3 jafntefli við Hauka.

Hjörtur og Sveinbjörn hafa því báðir skorað 15 mörk og Viðar kemur næstur með 14.

„Ég stefni auðvitað á markakóngstitilinn. Þetta verður bara græjað í lokaumferðinni gegn Haukum, sama hvort ég þarf tvö mörk eða fleiri,“ sagði Viðar að lokum.

Fyrri greinÖruggur sigur tryggði Pepsideildarsæti
Næsta greinPróflaus og dópaður