Sigga stóð sig frábærlega á Arnold Classic kraftamótinu

Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Sigurjónsdóttir, íþróttakona frá Suðra á Selfossi, keppti á kraftamótinu Arnold Classic í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum þann 8. mars síðastliðinn.

Sigríður stóð sig frábærlega á mótinu og varð í 3. sæti í standandi flokki 1. Hún sigraði í einni grein af þremur með miklum yfirburðum og bætti sitt eigið met þegar hún tók 11 lyftur í réttstöðu með 130 kíló. Hún stóð sig einnig vel í hinum tveimur greinunum þrátt fyrir að vera ekki með eins mikla æfingu í þeim. Þess má geta að þetta er aðeins annað mótið sem Sigríður tekur þátt í aflraunum og það fyrsta á erlendri grundu. 

Arnold Classic var með mjög breyttu sniði þetta árið vegna COVID-19 og miklar varúðaráðstafanir gerðar til að minnka smitleiðir og auka öryggi keppenda og þeirra sem aðgang höfðu að keppnishöllinni.

Að þessu sinni var ákveðið að aflýsa mörgum keppnisgreinum á mótinu og takmarka aðgang að keppnum þannig að í raun voru það aðeins keppendur, þjálfarar, fylgdarmenn og aðstandendur sem fengu aðgang.

„Eins og einn starfsmaður mótsins sagði við mig, það eru sirka 200.000 manns færra hérna á svæðinu en er öllu jafna og það segir sitt. Auðvitað kom Arnold Schwarzenegger sjálfur í keppnishöllina, spjallaði við keppendur og aðra sem í höllinni voru og var ánægður með hvað allt fór vel fram á mótinu. Hom aðeins inn á stöðu mála í heiminum og sagði að minnstu munaði að öllu mótinu hefði verið aflýst,“ segir Sigríður.

Sigga og Villa. Ljósmynd/Aðsend

Ferðasagan
Sigríður fór ásamt aðstoðarkonu sinni Vilhelmínu S. Smáradóttur í þetta skemmtilega ferðalag sem hófst miðvikudaginn 4. mars og heimkoma var þriðjudagurinn 10. mars. Hún sendi sunnlenska.is ferðasöguna sem fylgir hér á eftir.

Ferðalagið til Columbus í Ohio var u.þ.b. 15 tímar í heildina en leið hratt og gekk vel. Fyrst var flogið til Washington og þaðan eftir nokkra klukkustunda bið til Columbus Ohio.

Komið var á leiðarenda um miðnætti og því gekk furðu vel að stilla líkamsklukkuna því það var farið strax að sofa enda klukkan fimm að íslenskum tíma.

Strax fyrsta morguninn og alla daga fram að keppni var farið í Powerhouse líkamsræktina en mikilvægt var að koma flugþreytunni burt og virkja vöðvana fyrir átök sunnudagsins.

Dagarnir fyrir keppni voru notaðir í uppbyggingu, skoða sig um í borginni og taka því rólega, horfa á Hafþór Júlíus keppa ásamt fjölskyldu hans í áhorfendastúkunni, vera í góðra vina hópi.

Allir keppendur innan raða fatlaðra, aðstoðamenn og stjórnendur fóru saman út að borða í boði mótsins. Þarna kynnstu allir mjög vel og mynduðust sterk vinabönd sín á milli sem eiga eftir að vera ævilöng. Margir þessa keppenda munu koma til Íslands fyrstu helgina í júni og keppa á alþjóðlegu móti þ.e. Viking Strenght Challenge sem haldið hefur verið samhliða Víkingahátíðinni í Hafnafirði ár hvert en þar munu fatlaðir sem og ófatlaðir takast á og keppa í aflraunum. Að þessu sinni er verið að vinna að skipulagningu keppninnar en af mörgum óviðráðanlegum ástæðum er möguleiki á að einhverjar breytingar verða að þessu sinni.

Ljósmynd/Aðsend

Keppendur innan fatlaða hafa misjafnan bakgrunn og margar ástæður eru fyrir fötlun þeirra. Þarna eru margir einstaklingar sem hafa orðið fyrir slysi, útlimamissi vegna veikinda, eru blindir eða sjónskertir, með þroskaskerðingu eða hreyfiskerðingu af ýmsu tagi allt frá fæðingu en láta ekkert af þessu stoppa sig.

Á þessu móti lærðum við mikið og sáum að þarna eru óteljandi möguleikar og ekkert sem getur komið í veg fyrir að þeir sem vilja og hafa áhuga geti tekið þátt. Æfingarnar eru einstaklingsmiðaðar þannig að allir keppa við sína jafningja og keppnin oftar en ekki hörð og spennandi. Þetta var skemmtileg, áhugaverð og lærdómsrík keppnisferð í alla staði.

En þá má ekkert slá slöku við því núna hefst undirbúningur fyrir Sterkasta fatlaða kona Íslands og Viking Strenght challange en síðan er það heimsmeistaramótið sem haldið verður í Þýskalandi í ágúst.

Takk fyrir stuðninginn!

Sigríður Sigurjónsdóttir þakkar fyrir frábæran stuðning! Einstaklingar sem og fyrirtæki og félagasamtök styrktu þessa ferð, án ykkar allra hefði þessi ferð aldrei geta orðið að veruleika.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHrun í umferð á Þjóðvegi 1
Næsta greinAfgreiðslum lögreglunnar lokað