Sif til liðs við Selfoss

Sif Atladóttir. Ljósmynd/Aðsend

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við landsliðskonuna Sif Atladóttur um að leika með liði félagsins á komandi keppnistímabili.

Sif, sem er 36 ára varnarmaður, hefur undanfarin tíu ár leikið með Kristianstad í Svíþjóð og er hún leikjahæsti Íslendingurinn í sögu sænsku úrvalsdeildarinnar. Áður lék hún með Saarbrücken í Þýskalandi og hér heima með Val, Þrótti, FH og KR. Hún er þriðja leikjahæsta knttspyrnukona Íslandsfrá upphafi, hefur samtals leikið 325 deildarleiki og 84 A-landsleiki.

„Ég er mjög spennt fyrir því að spila fyrir Selfoss á næsta ári. Ég fylgist alltaf með deildinni heima þó að ég hafi verið erlendis og það hefur verið gaman að sjá stígandann hjá Selfoss síðastliðin ár. Það eru margar ungar og efnilegar stelpur sem hafa fengið stór hlutverk í liðinu og þarna er flottur hópur sem verður gaman að fá að kynnast,“ segir Sif.

„Eftir 12 ár erlendis verður gaman að koma heim og Selfoss er spennandi staður. Það hefur verið mikil uppbygging í sveitarfélaginu og það virkar á mig eins og það sé mikil samheldni í bænum. Þarna er aðstaðan og umgjörðin fyrir íþróttafólk til fyrirmyndar og speglar uppganginn í íþróttalífi bæjarins. Svo hlakka ég til að sjá fallega miðbæinn sem nánast allir sem ég tala við hafa gengið um,“ segir Sif og bætir við að hún hlakkar til að sjá stuðningsfólk Selfoss í stúkunni næsta sumar.

Fyrri greinSelfyssingar þrautgóðir í lokin
Næsta greinTveir atvinnubílstjórar kærðir