Shahid var stjarnan á vellinum

Vincent Shahid var stigahæstur Þórsara. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á Stjörnunni á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, 84-98.

Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og leiddu 34-49 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var í járnum, Þór hélt aftur af nánast öllum áhlaupum Stjörnunnar, heimamenn minnkuðu muninn í 11 stig í upphafi 4. leikhluta en þá tóku Þórsarar við sér aftur og kláruðu leikinn sannfærandi.

Vinnie Shahid hristi af sér veikindi vikunnar og setti upp sýningu, hann var yfirburða maður á vellinum í kvöld með 38 stig og 5 stoðsendingar. Jordan Semple skoraði 17 stig og tók 9 fráköst og Tómas Valur Þrastarson og Fotios Lampropoulos skoruðu báðir 11 stig en Lampropoulos tók 8 fráköst að auki.

Staðan í deildinni fyrir lokaumferðina er þannig að Þór er í 7. sæti með 20 stig og mun ekki lenda neðar. Liðið mætir Grindavík í lokaumferðinni og þarf þriggja stiga sigur til þess að lyfta sér upp í 6. sætið.

Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 38/5 stoðsendingar, Jordan Semple 17/9 fráköst, Fotios Lampropoulos 11/8 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 11, Styrmir Snær Þrastarson 9/5 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Emil Karel Einarsson 4, Einar Dan Róbertsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 3, Pablo Hernandez 2.

Fyrri greinEurovisionfari sýnir á sér nýja hlið
Næsta greinHamar og Selfoss sigruðu í lokaumferðinni