Sextán ára stigahæstur hjá Selfyssingum – Hamar og Hrunamenn sigruðu

Hinn 16 ára gamli Birkir Hrafn Eyþórsson fór á kostum hjá Selfyssingum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss, Hrunamenn og Hamar unnu öll góða sigra í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Liðin eru öll í efri hluta deildarinnar eftir leiki kvöldins.

Selfoss fékk Ármenninga í heimsókn í Gjánna. Leikurinn var lengst af í góðum höndum Selfyssinga en Ármenningar voru aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var 49-39. Í upphafi 4. leikhluta hljóp spenna í leikinn, Ármann komst yfir, 68-71 en þá tóku Selfyssingar aftur við sér og sigruðu að lokum 87-81. Besti maður vallarins var hinn 16 ára gamli Birkir Hrafn Eyþórsson, sem var stigahæstur Selfyssinga með 22 stig. Gerald Robinson skoraði 20 stig og tók 12 fráköst og Arnaldur Grímsson skoraði einnig 20 stig og Ísak Júlíus Perdue 14.

Hrunamenn mættu Þór Ak á Flúðum og byrjuðu leikinn af krafti. Hrunamenn náðu góðu forskoti í 1. leikhluta en staðan í hálfleik var 47-38. Hrunamenn náðu 15 stiga forskoti í upphafi 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða voru Þórsarar komnir 5 stigum yfir, 71-76. Á síðustu fimm mínútunum voru Hrunamenn hins vegar á tánum og náðu aftur góðu forskoti. Lokatölur leiksins urðu 101-94. Samuel Burt var stigahæstur Hrunamanna með 28 stig og 7 fráköst og Ahmad Gilbert átti sömuleiðis mjög góðan leik með 26 stig og 11 fráköst.

Mesta spennan í kvöld var í leik Hamars og Fjölnis í Hveragerði. Leikurinn var jafn framan af og staðan í hálfleik 47-51, Fjölni í vil. Gestirnir juku forskotið lítillega í 3. leikhluta en í þeim fjórða fóru Hvergerðingar á kostum bæði í sókn og vörn og tryggðu sér 90-81 sigur.Jose Medina var stigahæstur Hamarsmanna með 24 stig og 8 stoðsendingar, Mirza Super skoraði 18 stig og Ragnar Nathanaelsson var firnasterkur að vanda með 14 stig og 13 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 3. sæti með 12 stig og Selfoss og Hrunamenn í 4.-5. sæti með 10 stig.

Fyrri greinBrekkan brött gegn toppliðinu
Næsta greinSelfoss mætir ÍR í 16-liða úrslitum