Sex Sunnlendingar íþróttamenn síns sérsambands

Sex Sunnlendingar voru kjörnir íþróttamenn ársins af sínu sérsambandi. Verðlaunin voru veitt í vikunni, samhliða krýningu íþróttamanns ársins.

Þrír Hvergerðingar voru kjörnir íþróttamenn ársins af sínu sérsambandi, þeir Úlfar Jón Andrésson, íshokkímaður, Hafsteinn Valdimarsson, blakmaður og Snorri Þór Árnason, akstursíþróttamaður.

Guðmundur Friðrik Björgvinsson, Efri-Rauðalæk, var kjörinn knapi ársins og þá voru tveir liðsmenn Ungmennafélags Selfoss kjörnir íþróttamenn síns sérsambands, þær Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondokona og Gyða Dögg Heiðarsdóttir, motocrosskona.

Útlistun á afrekum sunnlensku íþróttamannanna má lesa hér að neðan.

Snorri Þór Árnason
Akstursíþróttamaður ársins – Snorri Þór keyrir Kórdrenginn í flokki sérútbúinna bíla í torfæru. Hann hefur átt sigursælan feril en hann var búinn að næla sér í Íslandsmeistaratitilinn þegar þrjár umferðir af sex voru búnar. Snorri Þór hefur tekið þátt í Norður-Evrópumeistaramótinu þar sem hann hefur verið á palli síðustu þrjú ár. Árið 2013 lenti hann í þriðja sæti, árið 2014 í öðru sæti og í ár leiddi hann keppnina en tapaði fyrsta sætinu í síðustu brautinni með 40 stigum, sem er minnsti munur sem sést hefur í þessum keppnum. Snorri Þór ætlar sér mikið í íþróttinni og er alltaf tilbúinn að leggja sérstaklega mikið á sig til að ná þeim árangri sem hann hefur sett sér. Hann er mikill keppnismaður og hans mottó í torfæru er að mæta alltaf tilbúinn í slaginn og með bílinn í lagi.

Hafsteinn Valdimarsson
Blakmaður ársins – Afrek Hafsteins, sem er 26 ára gamall, á árinu 2015 eru eftirfarandi: o 3. sæti í dönsku úrvalsdeildinni í blaki árið 2015. o Spilaði með liði sínu í úrslitum Norður-Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið endaði í 5. sæti. o Silfurverðlaun í dönsku bikarkeppninni í blaki árið 2015. Hafsteinn var einn af burðarásum landsliðs Íslands á Smáþjóðaleikunum í sumar sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Liðið vann til silfurverðlauna á leikunum. o Silfurverðlaun á Íslandsmóti í strandblaki með Kristjáni Valdimarssyni. o Lið Hafsteins er sem fyrr í toppbaráttu í dönsku úrvalsdeildinni og er lið hans komið áfram í undanúrslit í bikarkeppninni þetta leiktímabilið og er komið í úrslit Norðurlandamóts félagsliða. Hafsteinn er stigahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar í hávörn sem stendur. Hafsteinn Valdimarsson er fyrirmyndar blakmaður og æfir af kappi með liði sínu Marienlyst. Þátttaka hans í landsliðum Íslands er til fyrirmyndar og hann á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.
Úlfar Jón Andrésson
Íshokkímaður ársins – Úlfar Jón er fæddur 2. apríl 1983 og er því 32 ára að aldri. Úlfar Jón hefur alla sína tíð búið í Hveragerði og sótt æfingar þaðan síðan hann hóf að æfa íshokkí sex ára að aldri með Skautafélagi Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur Úlfar leikið með Birninum ásamt því að starfa að þjálfun yngri flokka fyrir félagið. Úlfar spilaði 42 unglingalandsleiki á sínum tíma. Sextán ára var Úlfar valinn í karlalandslið Íslands og hefur frá þeim tíma leikið 46 landsleiki, en síðast lék hann með landsliðinu í undankeppni Ólympíuleikanna í nóvember síðastliðnum. Úlfar hefur allan sinn leikferil verið þekktur fyrir baráttu sína og vinnusemi inn á ísnum ásamt því að vera góður liðsfélagi.
Guðmundur Friðrik Björgvinsson
Knapi ársins – Guðmundur Friðrik á að baki breiðan árangur á árinu sem er að líða og var tilnefndur til verðlauna í flokkunum kynbótaknapi ársins og íþróttaknapi ársins á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember. Hann var einnig valinn knapi ársins 2013. Hann virðist vera jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar, hvort sem það er gæðingakeppni, íþróttakeppni eða sýningar af ýmsum toga. Guðmundur varð Íslandsmeistari í fjórgangi á stóðhestinum Hrímni frá Ósi en stærsti sigur þeirra félaga á árinu var heimsmeistaratitill í fjórgangi á Heimsmeistaramótinu í Herning í ágúst. Að auki sigruðu þeir félagar fleiri mót hér heima og einnig náði Guðmundur frábærum árangri með aðra hesta á árinu. Hann sýndi fjölmörg kynbótahross á árinu og mörg þeirra til æðstu viðurkenninga í sínum flokki, eins og sex vetra hryssuna Garúnu frá Árbæ sem Guðmundur sýndi til gullverðlauna á heimsmeistaramótinu í Herning en Garún er jafnframt hæst dæmda sex vetra hryssan í heiminum í ár og hlaut 8,62 í aðaleinkunn. Guðmundur sýndi einnig næst hæstu fimm vetra hryssuna á heimsmeistaramótinu, Ríkey frá Flekkudal til silfurverðlauna og hlaut hún í aðaleinkunn 8,42. Guðmundur er fyrirmyndarknapi og íþróttamaður af lífi og sál, prúður innan vallar sem utan og frábær fyrirmynd ungra knapa. Hann er frábær liðsfélagi í landsliði Íslands í hestaíþróttum og á stóran þátt í samheldni og velgengni liðsins á HM2015. Hann er mikill fagmaður, kemur fram með vel þjálfaða og undirbúna hesta, fer afar vel á hesti, er jákvæður, sanngjarn og einbeittur reiðmaður og skipar sér í röð allra fremstu reiðmanna í heimi á íslenskum hestum.
Gyða Dögg Heiðarsdóttir
Mótorhjóla- og snjósleðakona ársins – Gyða er Íslandsmeistari í motocrossi kvenna árið 2015 og sigraði allar keppnir í mótaröðinni með nokkrum yfirburðum. Gyða er ung að aldri en hefur æft stíft undanfarin ár og á framtíðina fyrir sér í íslensku motocrossi.
Ingibjörg Erla Grétarsdóttir
Taekwondokona ársins – Ingibjörg Erla hefur náð einstökum árangri á mótum erlendis á árinu en þó báru hæst silfurverðlaun hennar á gríðarlega sterku móti, Serbian Open, sem er hluti af stigamótaröð Alþjóða Taekwondosambandsins, WTF. Er þetta í fyrsta skipti sem Íslendingur vinnur til verðlauna á þessari mótaröð, en þar sem kemur saman sterkasta taewkondofólk heimsins hverju sinni. Önnur afrek Ingibjargar á árinu eru m.a. þau að hún varð Íslands- og Norðurlandameistari. Ingibjörg er okkar allra besta bardagakona í taekwondo um þessar mundir og mun hún keppa á lokaúrtökum fyrir Ólympíuleikana sem haldnar verða í Tyrklandi um miðjan janúar.
Fyrri greinJónas og Ritvélarnar á toppi árslistans
Næsta greinKveikt í rusli við Sunnulækjarskóla