Kvennalið Selfoss í handbolta braut blað í sögu handknattleiksdeildarinnar í dag þegar liðið mætti AEK Aþenu í Grikklandi í fyrsta Evrópuleik Selfosskvenna.
Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en þegar rúmar átján mínútur voru liðnar voru Grikkirnir komnir með fimm marka forystu, 10-5. Selfoss náði að klóra í bakkann eftir það og staðan var 16-12 í hálfleik.
AEK byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og náðu tíu marka forystu, 24-14, en Selfoss náði að minnka muninn á lokakaflanum og skora síðustu tvö mörk leiksins, 32-26.
Liðin mætast aftur á Selfossi að viku liðinni og þar þarf Selfoss að sigra með sjö marka mun til þess að komast áfram í keppninni.
Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Selfoss, Hulda Dís Þrastardótitr 5/4, Mia Kristin Syverud og Arna Kristín Einarsdóttir 4, Eva Lind Tyrfingsdóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir og Inga Sól Björnsdóttir 2 og Sara Dröfn Richardsdóttir skoraði 1. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 9/1 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu og Sara Xiao Reykdal varði 1 skot og var með 33% markvörslu.
