Sex marka sigur í Tékklandi

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í dag. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann góðan sigur á KH Kopřivnice í fyrri leik liðanna í Evrópubikar karla í handbolta úti í Tékklandi í dag, 25-31.

Selfoss var sterkari aðilinn allan leikinn og var með góða forystu í leikhléi, 12-19. Munurinn hélst svipaður í seinni hálfleiknum en um hann miðjan náðu Selfyssingar mest níu marka forystu, 18-27, en Tékkarnir náðu að minnka muninn á lokakaflanum.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, þar af skoraði hann fimm mörk í fyrri hálfleik og var með 100% skotnýtingu á þeim kafla. Ragnar Jóhannsson skoraði sex mörk, Hergeir Grímsson 5/4, Atli Ævar Ingólfsson 4, Gunnar Flosi Grétarsson, og Ísak Gústafsson 3, Alexander Egan 2 og Richard Sæþór Sigurðsson 1.

Vilius Rasimas varði 12 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu.

Seinni leikur liðanna fer fram í Kopřivnice kl. 16 á morgun og fara Selfyssingar með sex marka forskot inn í hann.

Fyrri greinEndurbætur og uppbygging á Litla-Hrauni hafin
Næsta greinTilþrifalítið í lokaumferðinni