Sex leikmenn frá Selfossi á landsliðsæfingar

Sex leikmenn frá Selfossi hafa verið valdir í 25 manna æfingahóp U19 ára landsliðs Íslands fyrir forkeppni Evrópumóts U19 kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Búlgaríu í september.

Þetta eru þær Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Erna Guðjónsdóttir, Eva Lind Elíasdóttir, Hrafnhildur Hauksdóttir, Karitas Tómasdóttir og Katla Rún Arnórsdóttir. Sjöundi sunnlenski leikmaðurinn er Sabrína Lind Adólfsdóttir frá Hvolsvelli, leikmaður ÍBV.

Hrafnhildur á að baki níu landsleiki fyrir U17 ára lið Íslands, Bergrún Linda sjö, Katla Rún fimm, Sabrína tvo og Eva Lind einn.

„Það er mjög jákvætt fyrir Selfoss að sex stelpur hafi verið boðaðar til landsliðsæfinga um helgina. Þetta er klárlega frábær viðurkenning fyrir starfið okkar og þessar stelpur,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

Ekkert félag á eins marga leikmenn í hópnum sem koma mun saman til æfinga um næstu helgi áður en endanlegur landsliðshópur verður valinn.

Fyrri grein„Við gefumst aldrei upp“
Næsta greinGOS upp um deild í sveitakeppninni