Sex Íslandsmeistaratitlar og tvö HSK met

Keppendur frá HSK/Selfoss kræktu í sex Íslandsmeistaratitla og fjögur silfurverðlaun á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára í Laugardalshöll helgina 11.-12. janúar sl.

HSK/Selfoss átti sextán keppendur á mótinu sem allir stóðu sig með sóma.

Harpa Svansdóttir, Selfossi, stóð sig frábærlega. Hún sigraði í langstökki í flokki 15 ára stúlkna með 4,88 m sem og í kúluvarpi þar sem hún bætti sig um hálfan metra kastaði 10,54 m. Í þrístökki hafnaði Harpa í öðru sæti með ágætt stökk; 9,86 m.

Sveinbjörn Jóhannesson, 16 ára frá Laugdælum, gerði sér svo lítið fyrir og gjörsigraði keppinauta sína í kúluvarpi pilta 16-17ára er hann varpaði 5 kg kúlunni 13,34 m.

Fannar Yngvi Rafnarsson úr Þór varð Íslandsmeistari 16-17 ára pilta í langstökki og þrístökki. Hann stökk 6,04 m í langstökki og 12,67 m í þrístökki hann varð svo annar í 200 m hlaupi þar sem hann bætti eigið HSK met i 16 – 17 ára forlkki og 18 – 19 ára flokki þegar hann kom í mark á 24,01 sek. Hann varð líka í 2. sæti í 60 m hlaupi þegar hann kom í mark á 7,48 sek sem er bæting hjá honum.

Eva Lind Elíasdóttir úr Þór varð Íslandsmeistari í kúluvarpi, kastaði hún 11,99 m og svo varð hún í 2 .sæti í 60 m hlaupi á tímanum 8,28 sek.

ÍR vann stigakeppnina örugglega, en HSK/Selfoss varð í 8. sæti í stigakeppni þátttökuliða með 68,5 stig.