Sex Íslandsmeistarar skráðir til leiks á Hellu

Ljósmynd/Aðsend

Sindratorfæran, fyrsta umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri, fer fram á Hellu á morgun, laugardaginn 6. maí. Hellutorfæran hefur verið einn stærsti mótorsportviðburður á landinu síðustu ár og hafa 6.000 manns lagt leið sína á staðinn og 20 þúsund fylgst með í beinni útsendingu.

Að venju eru það Flugbjörgunarsveitin á Hellu og Akstursíþróttanefnd Umf. Heklu sem standa að keppninni og hafa gert nær óslitið síðan 1975.

Hvorki fleiri né færri en 23 keppendur eru skráðir til leiks. Þeirra á meðal eru Íslandsmeistarinn Haukur Viðar Einarsson en ekki nóg með það, heldur eru fimm aðrir fyrrum Íslandsmeistarar á keppendalistanum, þannig að útlit er fyrir hörkukeppni.

Aðstæður á Hellu eru með besta móti fyrir torfærukeppni ekið er í sandbrekkum með bröttum börðum, þar sem útsjónarsemi og stundum klúður ökumanna skilar sér í stökkum, tilþrifum og veltum. Seinni hluti keppninnar er svo meiri hraði og tilþrif þar sem keppendur reyna fyrir sér í tímabraut, vatnafleytingum og mýrarakstri.

Það er von á spennandi degi á Hellu en allar upplýsingar um keppnina má finna á Facebook.

Fyrri greinÍ skýjunum með nýjan aðalstyrktaraðila
Næsta greinMjótt á mununum í tilnefningum til vígslubiskups